„Ég átti alls ekki von á því, en það er mjög skemmtilegt,“ sagði Elín Rósa Magnúsdóttir, leikmaður Vals og íslenska landsliðsins, aðspurð hvort hún hafi búist við því fyrir nokkrum mánuðum að hún væri á leiðinni á sitt fyrsta stórmót í ár.
Þrátt fyrir að vera að stíga sín fyrstu skref með A-landsliðinu, er Elín í HM-hópnum sem hefur leik gegn Slóveníu í Stafangri í dag. „Þetta kom skemmtilega á óvart og gerðist allt mjög hratt. Það var mjög gott fyrir mig að fá mótið fyrir HM til að spila mig aðeins inn í liðið,“ sagði hún við mbl.is.
Elín, sem er 21 árs leikstjórnandi, er með nokkra samherja úr Val í landsliðshópnum sem hafa hjálpað henni að aðlagast.
„Það hefur gengið vel. Þetta er stórt skref, en stelpurnar eru mjög hjálpsamar ef maður er með einhverjar spurningar.
Svo er mjög gott að hafa samherja frá Val með í hópnum og svo þekki ég aðeins til Söndru líka. Það er gott að hafa þær með mér í þessu, ef ég er óviss með eitthvað,“ sagði Elín Rósa.