Forsetinn hrósaði Eyjakonunni

Sandra Erlingsdóttir heillaði forsetann.
Sandra Erlingsdóttir heillaði forsetann. Ljósmynd/Jon Forberg

Forseti norska handknattleikssambandsins, Kåre Geir Lio, ræddi við mbl.is á liðshóteli íslenska landsliðsins á heimsmeistaramótinu, en riðlar Íslands og Noregs eru báðir leiknir í Stafangri.

Norska landsliðið hefur lengi verið í allra fremstu röð og er sem stendur ríkjandi heims- og Evrópumeistari. En hvernig fer norska liðið að því að framleiða svona góða leikmenn, trekk í trekk?

„Þetta er stórt skref í A-landsliðið hjá okkur, en við erum með gott skipulag á öllu. Við erum með A-landsliðið og svo B-landsliðið sem er rétt á eftir. Svo erum við með góða brú á milli yngri landsliðanna og A-landsliðsins.

Sandra ræðir við mbl.is eftir leik.
Sandra ræðir við mbl.is eftir leik. Ljósmynd/Jon Forberg

Ísland er oft með betri yngri landslið, þar sem Ísland er með góða þjálfara niður í yngstu landsliðin, ólíkt okkar landsliðum. En þegar leikmenn hjá okkur eru 15-16 ára hefst strax undirbúningur til að gera þá tilbúna í A-landsliðið,“ útskýrði hann.

Ísland og Noregur mættust á alþjóðlega Posten Cup-mótinu í aðdraganda mótsins og var Geir Lio hrifinn af ýmsu sem íslenska liðið bauð upp á. Þá hrósaði hann Söndru Erlingsdóttur sérstaklega.

Kåre Geir Lio með Hassan Moustafa, forseta alþjóða handknattleikssambandisns á …
Kåre Geir Lio með Hassan Moustafa, forseta alþjóða handknattleikssambandisns á leik Íslands og Slóveníu í dag. AFP/Beate Dahle

„Íslenska liðið er gott og spilar hraðan og skemmtilegan bolta. Íslenska liðið er að gera það besta með þá leikmenn sem eru í boði. Það er gaman að sjá að kvennalið Íslands sé komið á stærsta sviðið.

Ég hef alltaf dáðst að íslenska karlalandsliðinu og vonandi verða konurnar komnar á sama stall bráðum. Ég var sérstaklega hrifinn af Söndru Erlingsdóttur, sem er mjög skarpur og góður leikmaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert