Elín Jóna Þorsteinsdóttir, önnur tveggja markvarða íslenska landsliðsins í handbolta, er mjög spennt fyrir heimsmeistaramótinu, en Ísland hefur leik gegn Slóveníu í Stafangri í dag á fyrsta stórmóti liðsins í rúman áratug.
Elín Jóna leikur með EH Aalborg í B-deild Danmerkur, eftir tvö ár með Ringköbing í úrvalsdeildinni. Ísland mætti m.a. Noregi í undirbúningi fyrir HM, sem var kærkomið fyrir Elínu.
„Ég spilaði síðast á móti svona góðu liði á síðasta tímabili og það er mikill munur á úrvalsdeildinni og svo fyrstu deild. Það var gott að rifja aðeins upp hvernig var að fá skot frá þessum bestu á mig aftur,“ útskýrði, sem samdi við Aalborg þegar liðið var líklegt til að fara upp úr 1. deildinni, en það gekk ekki eftir.
Elín segir íslenska liðið þurfa hafa góðar gætur á Önu Gros, sem er gríðarlega öflug skytta hjá Győr, sem er stórveldi í evrópskum handbolta. „Ég veit ekki allt of mikið um þær, en þær eru með mjög góðar skyttur. Ana Gros er sérstaklega sterk. Miðað við síðustu leiki á móti þeim þá ættum við að geta strítt þeim vel,“ sagði hún.
Ísland mætir Angóla í lokaleik sínum á mótinu, en Angóla vann þriggja marka sigur þegar liðin mættust á Posten Cup síðastliðinn sunnudag. Þar sýndi Ísland hins vegar fína takta og er ljóst að íslenska liðið getur hæglega unnið það angólska.
„Ég hlakka til að fá að spila við þær aftur og sýna hvað býr í okkur,“ sagði hún.
Eins og nær allir í íslenska hópnum er Elín að leika á sínu fyrsta stórmóti. „Við erum ótrúlega stoltar og spenntar. Þetta er gríðarlega stórt tækifæri fyrir okkur allar. Við erum mjög spenntar að fá að spila fyrir Íslands hönd á stórmóti,“ sagði Elín.