Þórey Rósa Stefánsdóttir er ein tveggja í íslenska landsliðshópnum í handbolta sem hefur leikið á stórmóti áður, en hún var með Íslandi á HM í Brasilíu 2011 og EM í Serbíu ári síðar. Þórey verður í eldlínunni þegar Ísland mætir Slóveníu í fyrsta leik sínum á HM í dag.
„Það er allt miklu stærra í kringum þetta en var. Þetta er ekki bara venjulegt landsliðsverkefni. Þetta er ótrúlega gaman. Ef ég ber þetta saman við Brasilíu árið 2011 er þetta öðruvísi. Þá vorum við í Brasilíu og aðeins einn íslenskur fjölmiðill og svo átta foreldrar. Við vorum öll saman í rosalegri búbblu.
Samfélagsmiðlar voru af mjög skornum skammti og ég hringdi kannski eitt símtal heim á meðan á mótinu stóð. Þetta er ekki sambærilegt í dag. EM árið 2012 var svo mikið styttra. Það voru bara þrír leikir og svo heim. Það var eins og venjuleg landsliðsvika,“ sagði Þórey, sem leikur með Fram í dag.
„Mér líst vel á þetta hér. Það er rosalega vel af öllu staðið til þessa og verður það án efa áfram,“ bætti hún við.