Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mátti þola tap, 30:24, í fyrsta leik liðsins í D-riðli á HM kvenna í handbolta í Stafangri í Noregi í dag. Var leikurinn sá fyrsti hjá Íslandi á lokamóti HM í tólf ár og sá fyrsti á stórmóti í ellefu ár.
Úrslitin þýða að líkurnar á að Ísland og Angóla leiki úrslitaleik um sæti í milliriðli í lokaumferð riðilsins aukast.
Það var augljóslega mikill skrekkur í leikmönnum Íslands í upphafi leiks og virtist ganga illa að ráða við spennustigið. Liðið gerði mörg mistök í sókninni fyrstu mínúturnar og var refsað grimmilega með eldsnöggum sóknum hjá slóvenska liðinu, sem oftar en ekki enduðu með mörkum.
Sú byrjun gerði það að verkum að Slóvenía komst snemma sjö mörkum yfir, 11:4. Arnar Pétursson tók þá leikhlé og náði að stilla strengi. Elín Jóna Þorsteinsdóttir kom inn í markið, varði mjög vel og Elín Rósa Magnúsdóttir kom með mikinn kraft í sóknina sömuleiðis.
Með glæsilegum seinni hluta fyrri hálfleiks náði íslenska liðið að minnka muninn í þrjú mörk og voru hálfleikstölur 16:13.
Perla Ruth Albertsdóttir skoraði fjögur mörk í hálfleiknum. Elín Rósa Magnúsdóttir og nafna hennar Elín Jóna Þorsteinsdóttir áttu einnig flottan hálfleik, eftir að hafa byrjað á bekknum.
Liðin skiptust á að skora í seinni hálfleik, en með góðum kafla um miðbik hans náði Ísland að minnka muninn í eitt mark, 20:19. Íslandi tókst hins vegar ekki að jafna og Slóvenía náði fjögurra marka forskoti á ný, þegar tíu mínútur voru eftir, 24:20.
Ísland tók þá leikhlé, skoraði tvö mörk í röð og minnkaði muninn í 24:22, þegar skammt var til leiksloka. Þá svaraði Slóvenía aftur með þremur mörkum og var íslenska liðið ekki líklegt til að jafna eftir það.
Íslenska liðið sýndi gríðarlegan styrk í að minnka muninn í eitt mark, eftir að hafa mest lent sex mörkum undir, en að lokum dugði það ekki til gegn reynslumeira liði Slóvena, sem nýttu sér þá reynslu á lokakaflanum.
Perla Ruth Albertsdóttir, Sandra Erlingsdóttir og Thea Imani Sturludóttir skoruðu fimm mörk hvor fyrir Ísland. Elín Rósa Magnúsdóttir gerði fjögur. Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði níu skot í íslenska markinu.
Næsti leikur Íslands í riðlinum er gegn Ólympíumeisturum Frakklands á laugardag.