Ótrúlegt að þetta hafi tekist

Berglind Þorsteinsdóttir er mætt á sitt fyrsta stórmót með íslenska …
Berglind Þorsteinsdóttir er mætt á sitt fyrsta stórmót með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Jon Forberg

Landsliðskonan Berglind Þorsteinsdóttir, leikmaður Fram, leikur sinn sextánda landsleik er Ísland mætir Slóveníu í fyrsta leik liðanna á lokamóti HM í handbolta í dag, en D-riðill Íslands fer fram í Stafangri í Noregi.

Berglind, sem er 24 ára, lék nánast ekkert á síðustu leiktíð vegna meiðsla en hún hefur í tvígang verið lengi frá keppni vegna erfiðra hnémeiðsla. Þrátt fyrir það er hún mætt til leiks á fyrsta stórmóti Íslands í ellefu ár.  

„Ég get ekki sagt að ég hafi átt von á þessu á þessum tímapunkti. Ég er búin að vera óheppin með meiðsli og var frá allt síðasta tímabil. Þetta var alltaf draumurinn, en samt er ótrúlegt að þetta hafi tekist,“ sagði Berglind við mbl.is frá liðshóteli landsliðsins í Stafangri.

„Síðasta árið var ég frá miklu lengur en ég bjóst við. Ég sleit fyrst krossband á hægra hnénu og svo meiddist ég á hinu hnénu og fékk beinmar. Ég hélt þetta myndi taka styttri tíma, en þetta endaði næstum því í heilu tímabili.

Maður kemur bara sterkari til baka. Þetta tók lúmskt mikið á, en sem betur fer á maður góða að og fær góðan styrk að heiman,“ sagði Berglind, sem leikur aðallega í vörn með landsliðinu, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert