Leikstjórnandinn Elín Rósa Magnúsdóttir er afar spennt fyrir sínu fyrsta stórmóti í handbolta, en hún er í íslenska landsliðshópnum sem leikur á HM. Leikur hún væntanlega sinn fyrsta leik á stærsta sviðinu gegn Slóveníu í dag.
Íslenska liðið fékk boðssæti á mótið og er í mjög sterkum riðli. Það verður því þrautin þyngri að ná í góð úrslit í D-riðlinum, en Frakkland og Angóla eru einnig í riðlinum.
„Þetta er spennandi fyrir okkur og þvílík reynsla. Það er lítil utanaðkomandi pressa á okkur en við setjum pressu á okkur sjálfar og viljum sýna góða frammistöðu. Þrátt fyrir það förum við ágætlega pressulausar inn í þetta verkefni.
Það voru miklir möguleikar á móti Angóla þegar við mættum þeim í síðustu viku og mér fannst við eiga slatta inni eftir þann leik. Við gerðum aðeins of mikið af mistökum, en vorum samt vel inni í þeim leik,“ sagði hún.
Elín hefur alla tíð leikið með Val, en nái hún að að nýta sviðsljósið á HM vel, gæti hún fengið símtöl erlendis frá. „Maður reynir að einblína á frammistöðuna og að hjálpa liðinu. Ég reyni að pæla sem minnst í því og njóta þess að vera með,“ sagði Elín Rósa.