Spennan er að magnast upp

Arnar Pétursson stýrir Íslandi á stórmóti í fyrsta skipti í …
Arnar Pétursson stýrir Íslandi á stórmóti í fyrsta skipti í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

„Síðasta vika hefur verið mjög góð,“ sagði Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, í samtali við mbl.is. Arnar stýrir liðinu í fyrsta sinn á lokamóti stórmóts í dag er það mætir Slóveníu í D-riðli á HM í Stafangri í Noregi. Verður flautað til leiks klukkan 17.

Íslenska liðið hitaði upp fyrir mótið með leikjum gegn Noregi, Angóla og Póllandi á Posten Cup og var Arnar ánægður með ýmislegt þar, þrátt fyrir þrjú töp.

„Við höfum fengið helling út úr undanfarinni viku, tekið skref fram á við og fengið fullt af svörum. Við mættum mjög sterkum liðum á Posten Cup og fengum ýmiss svör bæði í vörn og sókn.“

Arnar Pétursson og Ágúst Þór Jóhannsson vinna vel saman.
Arnar Pétursson og Ágúst Þór Jóhannsson vinna vel saman. Ljósmynd/Jon Forberg

Ísland mætir svo Angóla í lokaleik riðilsins á HM, sem gæti orðið úrslitaleikur um sæti í milliriðli.

„Við hefðum getað tekið þær á Posten Cup, en þær eru feykisterkar og aðeins öðruvísi lið en önnur sem við mætum. Það verður krefjandi en skemmtilegt og að mæta þeim aftur, en við eigum tvo aðra leiki fram að því,“ sagði hann.

En við hverju býst Arnar gegn Slóveníu í dag?

„Slóvenska liðið er mjög sterkt og hefur verið á þessum stórmótum á undanförnum árum. Þetta er lið sem er með leikmenn sem spila í sterkustu deildum Evrópu og þar er fremst í flokki Ana Gros. Þær spila yfirleitt sterka 6-0 vörn og eru þéttar.“

Arnar Pétursson og Ágúst Jóhannsson eru klárir í slaginn.
Arnar Pétursson og Ágúst Jóhannsson eru klárir í slaginn. Ljósmynd/Jon Forberg

Aðeins tveir leikmenn Íslands hafa farið á stórmót áður. Ágúst Jóhannsson, aðstoðarþjálfari liðsins, stýrði því svo á HM 2011 og EM 2012. Það er því kúnst að halda spennustiginu í réttu magni.

„Ég held það hafi bara gengið ágætlega. Andinn í hópnum er mjög góður og spennan er að magnast upp. Það hefur verið hlutverk okkar síðustu daga að halda henni í réttu magni. Við viljum spila okkar leik. Það hjálpar svo að hafa skemmtilegan mann og góðan þjálfara í Gústa sem hefur gert þetta allt áður,“ sagði Arnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert