Svekkt en á sama tíma ótrúlega stolt

Elín Jóna ræðir við mbl.is eftir leik.
Elín Jóna ræðir við mbl.is eftir leik. Ljósmynd/Jon Forberg

Afmælisbarnið og markvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir var svekkt eftir tap gegn Slóveníu, 30:24, í fyrsta leik Íslands í D-riðli á HM, en leikið var í Stafangri í Noregi.

„Ég er svekkt yfir að hafa ekki fengið neitt út úr þessum leik, en á sama tíma ótrúlega stolt af liðinu og öllum Íslendingunum hérna. Ég er með tár í augunum eftir afmælissöng og allt. Ég á varla til orð,“ sagði tilfinningarík Elín við mbl.is eftir leik.

Íslenska liðið byrjaði illa og lenti sjö mörkum undir snemma leiks. Með góðu svari tókst Íslandi að minnka muninn í þrjú mörk fyrir hálfleik og svo eitt mark í seinni hálfleik. Slóvenía var hins vegar sterkari í lokin.

Elín steinliggur eftir skot í höfuðið í dag.
Elín steinliggur eftir skot í höfuðið í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

„Spennustigið var svolítið hátt, en um leið og við fengum nokkur mörk og náðum að stoppa þær betur urðum við rólegri og náðum að spila okkar leik. Þetta small betur þegar leið á fyrri hálfleikinn.

Í lokin var það kannski reynslan. Þær hafa verið í þessu lengi og eru klókar. Þær vissu hvað þær þurftu að gera til að fá dómgæslu í þeirra hag. Þær vita hvernig á að fá vítin og ruðningana og eru góðar að sækja það sem þær vilja. Það skein í gegn á lokamínútunum,“ úrskýrði Elín.

Stuðningsmenn Íslands sungu afmælissöng handa Elínu í leikslok.
Stuðningsmenn Íslands sungu afmælissöng handa Elínu í leikslok. AFP/Beate Dahle

Elín var eins og flestir aðrir leikmenn Íslands að spila sinn fyrsta leik á stórmóti. Það er tilfinning sem hún gleymir seint.

„Þetta er geggjað og ólýsanleg tilfinning. Að standa þarna og sjá „Ísland verið velkomin aftur eftir tólf ár“ var frábært og ég er ótrúlega stolt. Við spiluðum með íslenska hjartanu og gáfumst ekki upp. Við viljum vera þekktar fyrir þetta, ekki gefast upp og vera svolítið geðveikar. Það var flott hjá okkur,“ sagði Elín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert