„Mér líður ágætlega, en það var margt sem við hefðum getað gert betur, sérstaklega í byrjun. Það var stígandi í þessu hjá okkur, eins og oft áður,“ sagði Elín Rósa Magnúsdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is í kvöld.
Elín átti glæsilega innkomu af bekknum er Ísland tapaði fyrir Slóveníu, 24:30, í fyrsta leik liðanna í D-riðli á lokamóti HM í Stafangri í dag.
Skoraði Valskonan fjögur mörk og átti auk þess flottar sendingar á liðsfélaga sína. Elín er nýbyrjuð að spila með landsliðinu, en átti í litlum erfiðleikum með að fóta sig á stærsta sviðinu.
„Mér leið ótrúlega vel. Þessar stelpur hafa verið ótrúlega góðar að taka á móti mér og leiðbeina mér. Ég fékk ekki beint einhver skilaboð, en ég fann ekki beint pressuna, ekki nema þá pressu sem ég set á sjálfa mig,“ sagði hún og hélt áfram:
„Maður hugsaði alveg um hvar maður væri, en það var mikilvægt að njóta. Maður fær ekki svona tækifæri oft. Ég vildi njóta þess að spila þennan leik og sýna mig í leiðinni,“ sagði hún.
Leikurinn í dag var kaflaskiptur, því Slóvenía komst mest sjö mörkum yfir, á meðan Ísland jafnaði í eitt mark í seinni hálfleik. Slóvenía var hins vegar sterkari í blálokin.
„Við fórum að gera tæknifeila og þá fáum við hraðaupphlaup í bakið á okkur. Þær eru með sterkt lið og refsa vel,“ sagði hún og viðurkenndi að það hafi verið skrekkur í íslenska liðinu í upphafi leiks.
„Ég held það hafi spilað inn í. Þetta er risastórt og svo miklu stærra en að spila aðra leiki. Það var örugglega smá skrekkur í okkur,“ sagði hún og lýsti síðan upplifuninni að spila á HM í fyrsta skipti, með góða íslenska áhorfendur á bakinu.
„Það var geggjuð stemning í okkur. Maður fann meðbyr í hvert skipti sem bekkurinn stóð upp. Stemningin var sturluð og maður heyrði bara í íslenskum áhorfendum, sem hjálpaði okkur,“ sagði Elín Rósa.