„Dagurinn var frábær,“ sagði markvörðurinn Hafdís Renötudóttir í samtali við mbl.is. Hafdís lék í gær sinn fyrsta leik á stórmóti er hún byrjaði inn á gegn Slóveníu á HM í handbolta í Stafangri í Noregi í gær.
Leikurinn var sá fyrsti hjá Íslandi á stórmóti í ellefu ár og því mikil spenna. Eftir kaflaskiptan leik vann Slóvenía að lokum 30:24, en íslenska liðið minnkaði muninn í eitt mark þegar skammt var eftir. Slóvenska liðið var hins vegar sterkara í blálokin.
„Við vorum ótrúlega spenntar fyrir leiknum og maður hafði sett markið hátt og ímyndað sér alls konar hluti. Svo var svekkjandi hvernig þetta fór. Maður er enn þá svekktur í dag, en við skiljum það eftir og verðum klárar á morgun þegar við spilum við Frakka.
Maður fór svolítið niður og svo aftur upp þegar við náðum næstum því að jafna. Það var svekkjandi að ná ekki allavega einu stigi,“ sagði Hafdís.
Ísland fór illa af stað í leiknum og lenti snemma sjö mörkum undir. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður var Hafdísi skipt af velli og Elín Jóna Þorsteinsdóttir kom inn á og byrjaði strax að verja vel, en íslenska liðið þétti raðirnar eftir því sem leið á hálfleikinn.
„Auðvitað er það svekkjandi að byrjaði illa og það var erfitt fyrir mig að fást einungis við dauðafæri. Það hefði verið gaman að byrja með góðri vörn og ná að leysa blokkina þeirra betur og halda þannig áfram. Vörnin varð betri, Elín kom góð inn og þá komumst við aftur inn í leikinn sagði hún og hélt áfram:
„Það er gaman að horfa til baka og sjá að markvarslan hjá okkur hefur verið stöðug, sama hvor er inn á. Það er einkennandi að allavega önnur okkar á góðan leik. Ég er stolt af því að vera hluti af góðu markvarðarpari.“