Markaveisla hjá norska liði Þóris

Hin norska Kristine Breistol fagnar í kvöld.
Hin norska Kristine Breistol fagnar í kvöld. Ljósmynd/Jon Forberg

Norska kvennalandsliðið í handbolta blés til markaveislu er liðið mætti Austurríki í 2. umferð C-riðils í Stafangri í Noregi í kvöld. Urðu lokatölur 45:28, Noregi í vil.

Norska liðið náði undirtökunum strax í upphafi leiks og var yfir allan leikinn. Gríðarlega gott norskt lið keyrði yfir andstæðing sinn, sem fékk boðssæti á mótinu eins og Ísland. Var staðan í hálfleik 21:12 og hélt markaveislan áfram í seinni hálfleik.

Henny Reistad skoraði tíu mörk fyrir Noreg og Camilla Herrem sex. Ines Ivancok skoraði sex mörk fyrir Austurríki.

Hinir gestgjafarnir í Svíþjóð og Danmörku unnu einnig leiki sína. Svíþjóð vann 36:24-sigur á Kína í Gautaborg í 1. umferð A-riðils og Danmörk vann 25:21-sigur á Serbíu í Herning.

Loks vann Spánn 32:20-sigur á Úkraínu í Fredrikshavn í Danmörku. Er Spánn með fjögur stig eins og Brasilía á toppi G-riðils.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert