Skulum hafa það á hreinu að ég er þriðja elst

Þórey Rósa Stefánsdóttir einbeitt á æfingu í Noregi.
Þórey Rósa Stefánsdóttir einbeitt á æfingu í Noregi. Ljósmynd/Jon Forberg

Hornakonan knáa Þórey Rósa Stefánsdóttir er komin á sitt þriðja stórmót í handbolta, en hún er í stóru hlutverki hjá íslenska landsliðinu sem er um þessar mundir í riðlakeppninni í Stafangri í Noregi. Hún var síðast með á EM í Serbíu 2012.

„Ég var ung síðast og fylgdi meira. Það voru samt allir með sitt hlutverk í hópnum, eins og það er núna. Skiptir þá litlu hvort leikmenn séu ungir eða gamlir. Sama hvað þú ert gamall, þá þarftu að taka til þín hlutverk þegar þú ert kominn í A-landsliðið.

Núna læt ég meira í mér heyra, enda reynslumest, bæði þegar kemur að því að skjóta á leikmenn og koma með léttleikann eða ráð sem ég vona að sé eitthvert vit í,“ sagði Þórey glöð í bragði við mbl.is.

Þórey Rósa í færi gegn Angóla á Posten Cup.
Þórey Rósa í færi gegn Angóla á Posten Cup. Ljósmynd/Jon Forberg

Ofanritaður mismælti sig í næstu spurningu og spurði Þóreyju hvernig væri að vera áratugum (í fleirtölu) eldri en sumir liðsfélagar í landsliðinu.

„Við skulum hafa það á hreinu að ég er þriðja elst!“ sagði Þórey, hló og hélt áfram. „Það er dásamlegt. Maður er kominn í eldri kantinn hjá félagsliðinu líka og maður er farinn að þekkja þessa stöðu.

Ljósmynd/Jon Forberg

Það eru algjör forréttindi að vera hér enn og hafa náð þessum árangri að komast aftur á stórmót eftir að við duttum aðeins niður og lentum í erfiðleikum með að komast inn á stórmót síðustu ár. Ég verð ávallt stolt af þessu á mínum handboltaferli,“ sagði hún og hélt áfram:

„Ég vissi að þetta myndi koma á endanum, en fyrir nokkrum árum hafði ég áhyggjur af því að það væri of langt í þetta og ég myndi ekki ná því,“ sagði Þórey, sem er 34 ára ung.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert