Frakkar reyndu að komast auðveldlega frá þessu

Íslenska liðið fagnar á bekknum gegn Slóveníu.
Íslenska liðið fagnar á bekknum gegn Slóveníu. Ljósmynd/Jon Forberg

Ágúst Jóhannsson, aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta, er mættur á sitt þriðja stórmót með kvennalandsliðinu, en hann hefur einnig mætt á tvö síðustu stórmót karlalandsliðsins og því nóg að gera hjá þjálfaranum reynslumikla.

„Þetta er alltaf jafn skemmtilegt. Ég er búinn að vera með karlaliðinu á síðustu tveimur og svo var ég á sínum tíma á bæði HM og EM kvenna, en nú er ég í öðruvísi hlutverki. Þetta er alltaf jafn góð tilfinning, ekki spurning,“ sagði Ágúst þegar hann settist niður með mbl.is á liðshóteli Íslands í Stafangri í Noregi, þar sem riðill Íslands á HM er leikinn.

Díana Dögg Magnúsdóttir fer í gegnum vörn Slóveníu.
Díana Dögg Magnúsdóttir fer í gegnum vörn Slóveníu. Ljósmynd/Jon Forberg

Ísland lék gegn Slóveníu í fyrsta leik á HM, þar sem Íslendingar voru fjölmennir í stúkunni og aðeins tveir leikmenn í íslenska liðinu höfðu áður leikið á stórmóti. Ísland byrjaði leikinn illa og lenti sjö mörkum undir snemma, en svaraði með glæsilegum kafla og minnkaði muninn í eitt mark í seinni hálfleik. Slóvenía var hins vegar sterkari í lokin.

„Það var frábær mæting, sem er mjög gott fyrir leikmenn. Svo er það sérstök tilfinning að vera með svona marga unga leikmenn og það var skemmtilegt að finna tilfinninguna í liðinu í klefa fyrir leik. Maður fann að það var mikil spenna undir niðri.

Flestallir leikmenn voru að spila sinn fyrsta leik á stórmóti og það var eðlilegt að það var skrekkur í liðinu. Þær unnu sig svo frábærlega í gegnum það,“ sagði Ágúst.

Perla Ruth Albertsdóttir skoraði fyrsta mark Íslands á HM.
Perla Ruth Albertsdóttir skoraði fyrsta mark Íslands á HM. Ljósmynd/Jon Forberg

Elín Rósa Magnúsdóttir, sem hefur lengi spilað fyrir Ágúst hjá Val, átti glæsilega innkomu í seinni hálfleik og kippti sér lítið upp við að spila á stærsta sviðinu í fyrsta skipti. 

„Elín er gríðarlega góður og yfirvegaður leikmaður sem hefur verið að vaxa mikið síðustu ár. Hún hefur staðið sig gríðarlega vel með landsliðinu,“ sagði Ágúst.

Ísland leikur við Frakkland í dag og svo Angóla á mánudag í leik sem gæti orðið úrslitaleikur um sæti í milliriðli. Angóla kom á óvart og átti Frakkland í stökustu vandræðum með Afríkuþjóðina í fyrsta leik. Frakkland vann að lokum með einu marki, þegar Angóla fékk tækifæri til að jafna í lokasókninni.

Ágúst ræðir við mbl.is á liðshóteli Íslands.
Ágúst ræðir við mbl.is á liðshóteli Íslands. Ljósmynd/Jon Forberg

„Angóla spilaði gríðarlega vel og það eitt og sér kom mér ekki á óvart. Þær eru með leikmenn sem spila í toppliði í Rúmeníu t.d. Mér fannst Frakkarnir reyna að komast eins auðveldlega frá þessu eins og hægt var. Þær voru kærulausar.

Þær voru með fullt af klikkum úr dauðafærum í hraðaupphlaupum á meðan Angóla var að spila sinn besta leik. Frakkarnir ættu að vera sterkastir í þessum riðli. Ég held að fólk geri sér samt ekki almennilega grein fyrir því hversu sterkt lið Angóla er,“ sagði Ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert