Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mætir því franska, ríkjandi ólympíumeisturum, í öðrum leik sínum í D-riðli á heimsmeistaramótinu í Stafangri í Noregi í dag klukkan 17. Frakkland er með ógnarsterkt lið og fáir eiga von á öðru en sigri franska liðsins.
Auk ólympíumeistaratitilsins hefur Frakkland náð í verðlaun á þremur af síðustu fjórum Evrópumótum, þar af gull á heimavelli árið 2018, og lenti í öðru sæti á síðasta HM, eftir tap gegn Þóri Hergeirssyni og Noregi í úrslitum.
Franska liðið er í allra fremstu röð og ætlar sér verðlaun á þessu móti og það er raunhæft markmið. Franska liðið vill koma á fleygiferð inn í Ólympíuleikana næsta sumar, þar sem liðið er á heimavelli.
Frakkland er hins vegar alls ekki ósigrandi og það íslenska sýndi góða kafla gegn Slóveníu í fyrsta leik. Nái íslenska liðið sínu allra besta fram, gegn frönsku liði sem er ekki upp á sitt besta, getur allt gerst. Það er því alltaf möguleiki, þótt hann sé vissulega lítill gegn einu allra sterkasta liði heims.
Möguleikinn átti einnig að vera lítill fyrir Angóla gegn Frakklandi á fimmtudaginn var. Angóla var yfir stóran hluta leiks og var svo hársbreidd frá því að jafna á lokasekúndunum, er Frakkar fóru með eins marks sigur af hólmi. Frökkum var gríðarlega létt og ljóst að liðið má ekki við því að vanmeta andstæðinga á stærsta sviðinu.
Franska liðið virtist koma værukært til leiks, gegn liði sem hafði engu að tapa. Það er hættuleg blanda. Þá sýndi Ísland mjög flotta spretti gegn Slóveníu í fyrsta leik og óx eftir því sem leið á leikinn, þar til erfiður lokakafli tók við. Þrátt fyrir tap gaf sá leikur liðinu mikið og mesti skrekkurinn er farinn úr óreyndum leikmönnum Íslands.
Greinin er í heild sinni í Morgunblaðinu sem kom út í morgun.