„Þetta var erfitt en ótrúlega gaman,“ sagði Katrín Tinna Jensdóttir, leikmaður íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is eftir 22:31-tap liðsins gegn ólympíumeisturum Frakklands í öðrum leik liðanna á HM í Stafangri í Noregi í dag.
Frakkland skoraði sjö fyrstu mörkin, en eftir það skiptu liðin því nokkur vel á milli sín að skora.
„Það var mikilvægt fyrir okkur að fá leik á móti svona sterku liði til að máta okkur við sterkari andstæðing. Það var smá stress og spenna í byrjun en við náðum að róa taugarnar og komast betur inn í þetta, þótt við náðum kannski ekki að minnka muninn mikið. Við spiluðum samt betur þegar leið á leikinn,“ sagði hún.
En hvernig er fyrir ungan leikmann að spila gegn svona ofboðslega sterku liði?
„Þetta var miklu hraðar og manni er refsað fyrir hver einustu mistök. Við þurfum að skila boltanum betur frá okkur og passa að gera ekki svona mörg mistök,“ sagði hún.
Katrín er á sínu fyrsta stórmóti og hún er að njóta þess að spila á stærsta sviðinu. „Það hefur verið geggjað. Það er ótrúlega mikilvægt að fá svona leiki á svona stóru sviði og með þessa pressu. Þetta er gott fyrir mig sem ungan leikmann.
Stuðningurinn var geggjaður frá fullt af Íslendingum í stúkunni. Maður fær gæsahúð við að sjá alla þessa Íslendinga. Það er ómetanlegt að fá þennan stuðning,“ sagði hún.
Ísland leikur úrslitaleik við Angóla um sæti í millriðli á mánudag. Tapliðið fer í forsetabikarinn. „Ég er spennt. Við eigum fullt erindi í þetta Angólalið og við ætlum að sækja sigur,“ sagði hún ákveðin.
Katrín var sáttari með sjálfa sig í dag en eftir fyrsta leik gegn Slóveníu, þar sem hún fékk rautt spjald fyrir þrjár brottvísanir. „Það var ekki alveg eins og ég sá fyrir mér að byrja þetta. Þá hristir maður það af sér og mætir sterkari í næsta leik,“ sagði línukonan.