Markvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir átti virkilega góðan leik fyrir íslenska landsliðið í handbolta er það tapaði fyrir ólympíumeisturum Frakklands á HM í Stafangri í Noregi í dag, 22:31.
„Við vissum fyrir fram að þetta væri rosalega sterkur andstæðingur sem við værum að fara að mæta. Við stefndum að því að geta farið héðan út með kassann út og höfuðið hátt og mér finnst við hafa náð að gera það,“ sagði Elín við mbl.is eftir leik.
Frakkland skoraði sjö fyrstu mörkin, en eftir það batnaði spilamennska íslenska liðsins til muna.
„Mér finnst við svo flottar að ekki hætta. Við erum ekki að brotna eftir svona byrjun og ekki heldur gegn Slóveníu. Við höldum bara áfram og gefum í. Það er frábært að það einkennir okkar lið,“ sagði hún.
Elín hélt á viðurkenningu sem hún fékk fyrir að vera valin best í leiknum, á meðan hún ræddi við mbl.is.
„Þetta er svolítið kúl. Mér finnst þetta nett, svo ég sé hreinskilin. Ég er mjög stolt af sjálfri mér. Það er langt síðan ég átti svona góðan leik á móti svona erfiðum andstæðingi. Ég er mjög glöð,“ sagði hún.
Elín varði alls 14 skot, þar af fjögur víti sem komu öll í röð.
„Ég vissi ekki að þau væru fjögur í röð! Ég fór pressulaus inn í þennan leik og sérstaklega þegar þær fengu vítin. Ég var búin að vinna heimavinnuna, en þær eru samt frábærar. Maður tók sénsinn og það gekk,“ sagði hún.
Fram undan er úrslitaleikur við Angóla um sæti í milliriðli. „Það er úrslitaleikur. Nú endurheimtum við, förum yfir allt saman og rífum okkur svo í gang,“ sagði Elín.