Ísland mátti þola tap gegn Frakklandi, 31:22, í öðrum leik sínum í D-riðli á HM kvenna í handbolta í Stafangri í Noregi í dag. Úrslitin þýða að Ísland leikur hreinan úrslitaleik við Angóla á mánudag um sæti í milliriðli. Tapliðið í þeim leik fer í forsetabikarinn.
Íslenska liðið var í stökustu vandræðum framan af leik, gegn gríðarlega góðu frönsku liði. Ólympíumeistararnir skoruðu sjö fyrstu mörkin og stefndi í óefni gegn einu besta liði heims í dag.
Íslenska sóknin fann sig betur næstu mínútur og var staðan 12:5 þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þá gáfu Frakkar aðeins í og var staðan í hálfleik 20:10.
Íslenska liðið gat auðvitað spilað betur í fyrri hálfleik, en það var einfaldlega við ofurefli að etja og eru liðin tvö á allt öðrum stað. Elín Jóna Þorsteinsdóttir í marki Íslands var besti leikmaður liðsins í fyrri hálfleik með sjö skot varin. Thea Imani Sturludóttir var markahæst með þrjú mörk.
Liðin skiptust á að skora framan af í seinni hálfleik og var staðan 25:15 þegar hann var tæplega hálfnaður. Arnar Pétursson tók síðan leikhlé í stöðunni 26:17, tíu mínútum fyrir leikslok, og var Ísland þá að vinna einni hálfleikinn með einu marki, sem varð einmitt raunin þegar uppi var staðið.
Sandra Erlingsdóttir var markahæst á vellinum með sjö mörk, þar af fjögur úr vítum. Thea Imani Sturludóttir kom næst með þrjú. Elín Jóna Þorsteinsdóttir átti afar góðan leik í markinum varði 14 skot og þar af fjögur víti.