Ótrúlega stolt, glöð og þakklát

Sunna ræðir við mbl.is á hóteli landsliðsins í Stafangri.
Sunna ræðir við mbl.is á hóteli landsliðsins í Stafangri. Ljósmynd/Jon Forberg

„Það var ótrúleg tilfinning,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Sunna Jónsdóttir í samtali við mbl.is, aðspurð um hvernig það hafi verið að leiða íslenska landsliðið inn á sitt fyrsta stórmót í handbolta í rúman áratug er það mætti Slóveníu á HM á fimmtudaginn var.

„Ég er ótrúlega stolt, glöð og þakklát. Við erum samt fyrirliðateymi og svo erum við einn hópur líka og erum allar saman í þessu. Þetta eru frábærar stelpur og það er gaman að fá að vera partur af þessu. Ég reyni að hjálpa til eins og ég get,“ bætti Sunna við.

Leikurinn við Slóveníu var mjög kaflaskiptur. Slóvenía náði snemma sjö marka forskoti, en með glæsilegum miðjukafla tókst Íslandi að minnka muninn í eitt mark þegar seinni hálfleikur var um það bil hálfnaður. Nær komst íslenska liðið hins vegar ekki og Slóvenía var sterkari í lokin.

Sunna Jónsdóttir spilar stórt hlutverk í íslenska landsliðinu.
Sunna Jónsdóttir spilar stórt hlutverk í íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Jon Forberg

„Við erum búnar að vera ótrúlega svekktar eftir þennan leik. Að ákveðnu leiti er það gott að vera svona svekktur eftir tap á fyrsta leik á HM í tólf ár. Við byrjuðum illa og það fór svolítið með leikinn.

Við komum okkur svo vel inn í hann og það er frábært. Það fór kannski fullmikil orka í það. Nú þurfum við að skoða og leggjast yfir hvað við getum gert betur og hvernig við getum lengt þessa góðu kafla. Við erum ótrúlega góðar þegar við spilum vel,“ útskýrði hún.

Strax í kjölfar leiksins við Slóveníu mættust Frakkland og Angóla í sama riðli. Bjuggust flestir við öruggum frönskum sigri, en Angóla var hársbreidd frá því að jafna með lokaskoti leiksins.

Sunna ræðir við mbl.is í Stafangri.
Sunna ræðir við mbl.is í Stafangri. Ljósmynd/Jon Forberg

„Það getur allt gerst á HM og maður sér það. Það er smá skrekkur í leikmönnum nánast í öllum þessum leikjum. Það er mikið af mistökum og mikið af skotum sem eru ekki að hitta á markið.

Frakkarnir eru kokhraustir og sérstaklega í fyrsta leik og Angóla spilaði vel. Ég er fegin að Frakkland hafi unnið þennan leik og það er enn möguleiki á úrslitaleik á mánudaginn gegn Angóla á mánudaginn. Það getur þó allt gerst á HM,“ sagði Sunna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert