Slóvenía er með fullt hús stiga í D-riðli Íslands á HM kvenna í handbolta eftir sigur á Angóla, 30:24, í 2. umferðinni í Stafangri í Noregi í dag. Slóvenía, sem vann Ísland í fyrsta leik, er í toppsæti riðilsins með fjögur stig en Angóla er án stiga.
Spilaðist leikurinn svipað og leikur Slóveníu og Íslands í fyrstu umferðinni og lokatölurnar urðu nákvæmlega þær sömu. Slóvenska liðið byrjaði betur og náði mest sex marka forystu í fyrri hálfleik, 14:8. Angóla skoraði þrjú síðustu mörkin í fyrri hálfleik og voru hálfleikstölur því 14:11.
Angóla byrjaði seinni hálfleikinn betur og komst yfir í stöðunni 17:16. og aftur í 20:19. Rétt eins og gegn Íslandi í fyrstu umferðinni var slóvenska liðið hins vegar mun sterkara á lokakaflanum og vann að lokum sannfærandi sigur.
Alja Varagic var markahæst í slóvenska liðinu með fimm mörk. Isabel Guialo gerði sex fyrir Angóla.
Takist Íslandi ekki að vinna ógnarsterka franska ólympíumeistara síðar í dag mætast Ísland og Angóla í hreinum úrslitaleik um sæti í milliriðli næstkomandi mánudag.