Var eiginlega ólýsanlegt

Lilja ræðir við mbl.is á liðshóteli landsliðsins í Stafangri.
Lilja ræðir við mbl.is á liðshóteli landsliðsins í Stafangri. Ljósmynd/Jon Forberg

„Þetta var geggjað. Það var ótrúlega mikið af áhorfendum og þetta var eiginlega ólýsanlegt,“ sagði landsliðskonan Lilja Ágústsdóttir í samtali við mbl.is. Lilja, sem er 19 ára hornakona Vals, er mætt á sitt fyrsta stórmót, eins og nánast allur íslenski hópurinn.

„Það var stórt augnablik að mæta til leiks á HM og fá að vera í þessum hóp. Það var svo æðislegt að hlaupa inn á og með mömmu, systkinum mínum og afa upp í stúku,“ sagði Lilja um leikinn við Slóveníu í 1. umferð D-riðils.

Leikurinn var mjög kaflaskiptur og komst Slóvenía sjö mörkum yfir snemma leiks. Ísland svaraði og minnkaði muninn í eitt mark í seinni hálfleik, en Slóvenía var betri í blálokin og vann 30:24-sigur.

„Mér fannst við spila vel, sérstaklega í seinni hálfleik. Þetta byrjaði illa, en við gáfumst ekki upp og það var mjög vel gert hjá okkur að gera góðan leik úr þessu,“ sagði hún.

Lilju fannst greinilega mjög gaman í viðtalinu.
Lilju fannst greinilega mjög gaman í viðtalinu. Ljósmynd/Jon Forberg

Tveir síðustu leikir Íslands í riðlinum eru gegn Angóla og Frakklandi, en Angóla var hársbreidd frá því að ná í óvænt jafntefli í leik liðanna í 1. umferð. Ísland mætti Angóla á Posten Cup í aðdraganda HM og úr varð spennandi leikur, sem Angóla vann þó að lokum.

„Maður var alls ekki að búast við svona leik hjá Angóla og Frakklandi, þótt Angóla sé með hörkugott lið. Leikurinn okkar við Angóla sýndi okkur að við eigum góðan séns í þær og við verðum að koma tilbúnar í leikinn. Markmiðið er að vinna leik og fara í milliriðil,“ sagði hún ákveðin.

Lilja var ekki búin að spila marga landsleiki, enda enn mjög ung, þegar hún fékk kallið í HM-hópinn sjálfan. „Ég var ekki örugg á að ég yrði í hópnum. Ég var að búast við því, en á sama tíma ekki. Ég vonaðist mjög mikið til þess,“ sagði Lilja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert