Thea Imani Sturludóttir, landsliðskona í handbolta, ætlaði sér alltaf langt í íþróttinni. Hefur hún alla tíð haft mikið keppnisskap og annað sæti ekki komið til greina.
„Í öllum íþróttum vildi ég alltaf vera best og ná sem lengst. Ég hef alltaf verið með gríðarlega mikið keppnisskap og vildi búa til keppni úr öllu.
Það var alltaf keppni hver var fyrstur út í bíl til að fá að vera í framsætinu. Dagurinn hjá okkur var ekki skemmtilegur þegar ég tapaði í einhverju,“ sagði Thea glöð í bragði þegar hún ræddi við mbl.is á liðshóteli Íslands á HM í Stafangri í Noregi.
Thea hefur leikið með Val frá árinu 2021, þegar hún sneri aftur heim eftir þrjú ár í atvinnumennsku í Danmörku og Noregi. Hún sagðist ekki endilega vera með hugann á að fara aftur út.
„Ég er ekkert að spá í því. Akkúrat núna er ég bara að einbeita mér að mótinu. Ég vil standa mig sem allra best. Mér líður mjög vel hjá Val,“ sagði skyttan öfluga.