Lilja Ágústsdóttir, landsliðskona í handbolta, leikur með systur sinni Ásdísi Þóru hjá Val og þá er pabbi þeirra Ágúst Jóhannsson þjálfari Valsliðsins og aðstoðarþjálfari landsliðsins.
Þrátt fyrir að Lilja sé tveimur árum yngri en systir sín, er hún í HM-hópnum en Ásdís ekki. Hornakonan segist finna fyrir stuðningi frá systur sinni og vonar að þær spili með landsliðinu saman.
„Ásdís samgleðst mér mjög mikið og það hjálpar að við spilum ekki sömu stöðu. Það er gott að það sé ekki bein samkeppni þar.
Það væri geggjað ef hún kæmist í hópinn líka og við færum saman á EM á næsta ári. Hún er aðeins öðruvísi en hinir miðjumennirnir og mér finnst hún eiga góða möguleika á að vera í hópnum,“ sagði Lilja um systur sína.
„Systkinin mín, mamma og pabbi styðja öll vel við bakið á mér, mæta á alla leiki og hvetja mann vel,“ sagði Lilja um sína miklu handboltafjölskyldu. En er hún ekkert komin með leið á pabba gamla, sem þjálfar hana alls staðar?
„Kannski smá,“ sagði hún og hló. „Mér finnst samt alltaf gott að hafa hann á bekknum. Mér líður vel með hann þar. Það er aðeins öðruvísi að hafa hann ekki sem aðalþjálfara. Hann er alltaf til í að hjálpa,“ sagði Lilja, sem skoraði sín fyrstu mörk á stórmóti í gær er hún gerði tvö mörk gegn Frakklandi.