Sunna Jónsdóttir er önnur tveggja leikmanna íslenska landsliðsins í handbolta sem hafði áður leikið á stórmóti, áður en íslenska liðið hóf leik á HM með leik gegn Slóveníu á fimmtudaginn var.
Sunna var í íslenska hópnum sem lék á EM í Danmörku árið 2010. Sunna var þá 22 ára og á meðal yngstu leikmanna íslenska liðsins. Nú er hún fyrirliði og næstelst á eftir Hildigunni Einarsdóttur.
„Ég var í allt öðru hlutverki þá. Ég var ein af þeim yngri og horfði upp til þeirra eldri. Ég reyni nú að vera í hlutverki þeirra eldri, miðla, gefa af mér og nýta reynsluna til að hjálpa.
Leikmenn glíma við alls konar tilfinningar. Stundum er þetta erfitt og maður er stundum fullur sjálfstrausts en missir það síðan. Við reynum að lifa í núinu og vera samstilltur og góður hópur,“ sagði Sunna við mbl.is á liðshóteli landsliðsins í Stafangri í Noregi.
Sunna var með á EM 2010, en var síðan ekki valin í hópanna fyrir HM ári síðar og EM 2012. Hún hefur því þurft að bíða lengi eftir að fá að loks spila á öðru stórmóti.
„Ég var ekki valin í seinni tvo hópana. Ég var í æfingahópnum en var ekki valin. Það voru svo ótrúlega góðir leikmenn sem voru á undan mér þá. Ég var mjög svekkt. Ég hef alltaf elskað þessa íþrótt og maður fann á fyrsta mótinu að maður vildi meira af þessu.
Samkeppnin var gríðarlega mikil þá og er það núna aftur. Núna erum við loksins komin aftur á þennan stað. Ég hef fulla trú á að þetta sé eitthvað sem koma skal til frambúðar,“ sagði Sunna.
Hún missti ekki trúna á að leika á stórmóti á nýjan leik, þrátt fyrir langa bið. „Mig dreymdi um það, vonaði það og óskaði þess svo innilega. Eftir að ég varð lykilmaður í liðinu hef ég alltaf haft það bak við eyrað. Síðan Arnar tók við höfum við verið að horfa á EM 2024 og við erum á góðri leið með að ná því markmiði.
Það var svo ótrúlega mikil gulrót fyrir okkur að fá boðssæti á þessu HM, sem við áttum algjörlega skilið. Við ætlum að nýta hana eins vel og við getum,“ sagði Sunna Jónsdóttir.