Ætlum okkur að vinna þennan leik

Andrea Jacobsen fagnar kærkomnu fyrsta marki á HM.
Andrea Jacobsen fagnar kærkomnu fyrsta marki á HM. Ljósmynd/Jon Forberg

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta leikur úrslitaleik við Angóla á heimsmeistaramótinu í Stafangri í Noregi í dag, þar sem sæti í milliriðli á HM er undir. Sigurliðið fer í milliriðil, en tapliðið spilar um Forsetabikarinn, sem er keppni um sæti 25.-32. sæti.

Angóla er fastagestur á HM, var nálægt því að vinna Frakkland í 1. umferðinni í Noregi og vann 27:24-sigur þegar liðin mættust á Posten Cup í Noregi í aðdraganda HM. Þrátt fyrir það ætlar íslenska liðið sér sigur, sem er raunhæft markmið.

Jóhanna Margrét fékk sínar fyrstu mínútur gegn Frakklandi.
Jóhanna Margrét fékk sínar fyrstu mínútur gegn Frakklandi. Ljósmynd/Jon Forberg

„Þetta er 50/50 leikur. Við eigum bullandi séns í þetta lið. Við erum búnar að skoða klippur yfir hluti sem við ætlum að gera betur.

Það var æfingaleikjabragur yfir síðasta leik á móti þeim, en núna er allt undir. Við ætlum okkur að vinna þennan leik,“ sagði Andra Jacobsen, vinstri skytta íslenska liðsins, við mbl.is um leikinn.

Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, sem lék sinn fyrsta leik á stórmóti gegn Frakklandi á laugardag, tók í sama streng. „Ég er mjög spennt fyrir þessum leik. Við ætlum að gefa allt í þetta og ætlum okkur sigur. Þetta verður skemmtilegur leikur,“ sagði Jóhanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert