Fyrsta stigið dugði Íslandi ekki

Elísa Elíasdóttir skorar fyrir Ísland gegn Angóla í dag.
Elísa Elíasdóttir skorar fyrir Ísland gegn Angóla í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta var hársbreidd frá því að tryggja sér sæti í milliriðli á lokamóti HM í Stafangri í Noregi í dag, en 26:26-jafntefli gegn Angóla dugði ekki til, þar sem Angóla er með betri markatölu eftir þrjá leiki.

Úrslitin þýða að Ísland fer í forsetabikarinn og leikur um sæti 25.-32. í Frederikshavn í Danmörku og Angóla fer áfram í milliriðil í Þrándheimi. Verður fyrsti leikur íslenska liðsins gegn Grænlandi á fimmtudaginn kemur.

Fyrri hálfleikur var mjög jafn og var jafnt á nánast öllum tölum. Um miðbik hálfleiksins kom fínn kafli hjá Íslandi, sem komst tveimur mörkum yfir, 12:10. Fékk liðið tækifæri til að komast þremur mörkum yfir, en það fór forgörðum.

Thea Imani Sturludóttir skýtur að marki Angóla í leiknum í …
Thea Imani Sturludóttir skýtur að marki Angóla í leiknum í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

Þess í stað komu þrjú snögg mörk í röð hjá Angóla og staðan skyndilega orðin 13:12, Angóla í vil. Skiptust liðin á að skora út hálfleikinn og var Angóla því með 15:14-forskot í hálfleik. Var staðan svekkjandi fyrir íslenska liðið, sem fór illa með góð færi til að vera með forskot í leikhléi.

Var um fína liðsframmistöðu að ræða hjá Íslandi, því átta leikmenn komust á blað í hálfleiknum. Sandra Erlingsdóttir gerði þrjú mörk og var markahæst í fyrri hálfleiknum. Albertina Kassoma og Chelcia Gabriel voru með fjögur hvor fyrir Angóla.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn mjög illa, því staðan var orðin 19:14 eftir skamma stund. Þá skoraði Ísland þrjú mörk í röð, minnkaði muninn í 19:17 og kom sér aftur inn í leikinn þegar um 20 mínútur voru eftir.

Skömmu síðar var staðan orðin 20:19 og leikurinn orðinn galopinn aftur og draumurinn um sæti í milliriðli enn lifandi. Íslenska liðið hélt góða kaflanum áfram og fyrirliðinn Sunna Jónsdóttir jafnaði í 21:21 þegar seinni hálfleikur var rétt rúmlega hálfnaður.

Ísland fékk gott tækifæri til að komast í 22:21, en Marta Alberto varði frá Þóreyju Rósu. Þess í stað skoraði Angóla næstu tvö mörk, komst í 23:21, og staðan orðin erfið fyrir Ísland þegar Arnar Pétursson tók leikhlé. Það leikhlé skilaði sínu, því Elísa Elíasdóttir jafnaði í 24:24, þegar rúmar fimm mínútur voru til leiksloka og stefndi allt í æsispennandi lokakafla.

Angóla komst í 26:24 og þrátt fyrir gríðarlega baráttu á lokakaflanum sem skilaði íslenska liðinu jafntefli, 26:26, var það ekki nóg því liðið þurfti eitt mark enn til að komast í milliriðilinn.

Ísland 26:26 Angóla opna loka
60. mín. Angóla tekur leikhlé Angóla tekur leikhlé þegar 57 sekúndur eru eftir.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert