Núna er ég bara búin á því

Þórey Rósa svífur inn úr hægra horninu í dag.
Þórey Rósa svífur inn úr hægra horninu í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

„Akkúrat núna er ég bara búin á því,“ sagði hornakonan Þórey Rósa Stefánsdóttir í samtali við mbl.is eftir 26:26-jafntefli Íslands gegn Angóla á HM í handbolta í Stafangri í Noregi.

Úrslitin þýða að Ísland missir af sæti í milliriðli og fer þess í stað í Forsetabikarinn, en Angóla fer áfram með betri markatölu. Var íslenska liðið því einu marki frá milliriðli.

„Ég hefði svo innilega viljað stela þessu í dag. Mér finnst við betra lið en þær og ég er ótrúlega svekkt að hafa ekki náð þessu.

Akkúrat núna er svekkelsið sterkast. Það er rosalega mikið af tilfinningum í gangi og þetta er mikill rússíbani. Mig langaði rosalega til Þrándheims,“ sagði Þórey.

Íslenska liðið sýndi margt jákvætt í leiknum í dag og var hársbreidd frá því að ná draumnum.

„Þetta var góð frammistaða og frábær stuðningur en ég hefði viljað refsa þeim meira. Þær áttu erfitt með að skora, nema þegar þær náðu einhverjum samskeytaskotum. Að sjálfsögðu er ég svo stolt af okkur öllum fyrir að gefa allt í þetta. Við gerðum það klárlega. Þetta var minnsti mögulegi munur.“

Næst á dagskrá hjá Íslandi er Forsetabikarinn og verður fyrsti leikur gegn Grænlandi á fimmtudag. „Það verður fullt af leikjum og vonandi fáum við æfingu í að vinna leiki. Það er enn þá hluti af þessari vegferð,“ sagði Þórey Rósa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert