Díana Dögg Magnúsdóttir var skiljanlega fúl eftir 26:26-jafntefli gegn Angóla í lokaleik íslenska landsliðsins í handbolta í D-riðli á HM í Stafangri í Noregi í dag.
Ísland hefði farið áfram í milliriðil með sigri og var því einu marki frá því að fara áfram. Þess í stað spilar Ísland um Forsetabikarinn í Fredrikshavn á næstu dögum.
„Maður er sár, svekktur og leiður yfir þessu öllu saman. Þetta endar í jafntefli en við hefðum viljað vinna þennan leik. Það er ömurlegt að hugsa til þess að þær fara áfram á markatölu, sama hvenær það er.
Við hefðum alveg getað klárað þetta, því þetta gat dottið báðum megin. Svo voru nokkrir dómar sem við hefðum viljað fá en fengum ekki. Ég ætla samt ekki að kenna dómurunum um neitt. Við hefðum átt að klára þetta sjálfar,“ sagði Díana.
Egypskir dómarar leiksins áttu ekki sinn besta dag, en Díana vildi ekki einbeita sér of mikið að þeim.
„Það var margt skrítið. Við tókum okkar skref löglega og dripplum og þá var boltinn dæmdur af okkur. Á meðan aðrir fá fimm skref til að fara í gegn. Það er auðvitað pirrandi en samt eigum við sénsa sem við gátum nýtt betur,“ sagði hún og hélt áfram:
„Maður er ógeðslega sár og leiður en á sama tíma stoltur og þakklátur fyrir þetta tækifæri. Þessir stuðningsmenn eru frábærir og Sérsveitin er æðisleg. Að syngja þjóðsönginn fyrir leiki í þessari stemningu er æðislegt,“ sagði Díana.
Næst á dagskrá hjá Íslandi er keppni í Forsetabikarnum, þar sem er leikið um sæti 25-32. í Fredrikshavn í Danmörku. „Við förum í alla leiki til að vinna þá þar og ég ætla ekki í felur með það,“ sagði Díana.