Sterkari tilfinningin er svekkelsi

Elísa skorar sitt fyrsta mark á HM.
Elísa skorar sitt fyrsta mark á HM. Ljósmynd/Jon Forberg

Eyjakonan Elísa Elíasdóttir var skiljanlega svekkt eftir 26:26-jafntefli gegn Angóla í lokaleik Íslands í D-riðli á HM í handbolta í Stafangri í Noregi í dag. Hún var á sama tíma stolt, þar sem hún var að leika sinn fyrsta leik á HM.

Úrslitin þýða að Angóla fer í milliriðil, en Ísland fer í Forsetabikarinn og spilar um sæti 25.-32. í Fredrikshaven á næstu dögum.

„Í fyrsta lagi er þetta mjög svekkjandi. Við vorum einu marki frá því að komast í milliriðil. Á sama tíma er ég mjög glöð með að hafa fengið að spila í dag. Þetta var fyrsti leikurinn minn á heimsmeistaramóti, sem er gaman. Sterkari tilfinningin er samt svekkelsi,“ sagði Elísa við mbl.is eftir leik.

Hún naut þess að spila á stærsta sviðinu í fyrsta skipti, þrátt fyrir að úrslitin hafi ekki verið Íslandi í hag. „Þetta var ógeðslega gaman. Það var frábært að spila í liði þar sem allir eru að styðja við þig og hvetja þig áfram. Þetta er yndislegt tilfinning. Á sama tíma var þetta erfitt og margar aðrar tilfinningar í gangi,“ sagði hún.

Ísland á fína möguleika á að ná langt í Forsetabikarnum, sem hefst með leik gegn Grænlandi á fimmtudag. „Stefnan er að vinna þetta mót sem hefst núna. Við tökum einn leik í einu og reynum að standa okkur eins vel og við getum. Við sjáum hvert það tekur okkur.“

Elísa skoraði þrjú mörk í dag, en engin línumaður hefur skorað eins mörg mörk fyrir íslenska liðið í leik á mótinu.

„Það er erfitt, en það er einhvers staðar aftast í höfðinu að ég hafi staðið mig vel. Númer eitt, tvö og þrjú er liðið og ég vil ekki hugsa bara um mig,“ sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert