Keppni í riðlum B, F og H á HM 2023 í handknattleik kvenna lauk í kvöld með hreinum úrslitaleikjum í öllum þremur riðlunum.
Í B-riðli hafði Svartfjallaland betur gegn Ungverjalandi, 24:18, og vann þar með riðilinn með fullu húsi stiga.
Það þýðir að Svartfjallaland tekur fjögur stig, Ungverjaland tvö stig og Kamerún ekkert stig með sér í milliriðil, þar sem liðin munu mæta Svíþjóð og Króatíu ásamt Senegal eða Kína.
Í F-riðli vann Þýskaland gífurlega öruggan sigur á Póllandi, 33:17, og vann riðilinn með fullu húsi stiga.
Þýskaland tekur fjögur stig, Pólland tvö stig og Japan ekkert stig með sér í milliriðil, þar sem liðin munu mæta Danmörku og Rúmeníu ásamt Serbíu eða Síle.
Í H-riðli vann Holland svo auðveldan sigur á Tékklandi, 33:20, og líkt og í ofangreindum riðlum vann Holland riðilinn með fullu húsi stiga.
Holland tekur fjögur stig, Tékkland tvö stig og Argentína ekkert með sér í milliriðil, þar sem liðin munu mæta Spáni, Brasilíu og Úkraínu.