Illa borgað í atvinnumennsku: Þetta er drulluerfitt

Andrea var opinská í samtali við mbl.is.
Andrea var opinská í samtali við mbl.is. Ljósmynd/Jon Forberg

Landsliðskonan Andrea Jacobsen, 25 ára skytta sem leikur með Silkeborg-Voel í dönsku úrvalsdeildinni, hefur leikið sem atvinnumaður erlendis frá árinu 2018. Lék hún fyrst í þrjú ár með Kristianstad í Svíþjóð, en síðan þá hefur hún leikið í Danmörku.

Fyrst fór hún í Aalborg og lék í 1. deildinni. Eftir góða frammistöðu þar samdi hún við úrvalsdeildarfélagið Silkeborg-Voel fyrir þessa leiktíð.

„Það eru forréttindi að vinna við það sem maður elskar að gera. Ég fór út mjög ung og þetta hefur legið upp á við hjá mér. Ég byrjaði í Svíþjóð, fór síðan til Danmerkur þar sem ég er komin upp í efstu deild.

Andrea ræðir við mbl.is í Stafangri.
Andrea ræðir við mbl.is í Stafangri. Ljósmynd/Jon Forberg

Umgjörðin, samkeppnin og klúbbarnir, þetta er allt stærra og meira en á Íslandi. Maður græðir mikið á því sem persóna að búa ein í útlöndum,“ sagði Andrea um lífið sem atvinnukona í samtali við mbl.is á liðshóteli íslenska landsliðsins í Stafangri í Noregi.

Lífið sem atvinnukona erlendis er hins vegar ekki alltaf dans á rósum, þar sem starfið er ekki sérlega vel borgað nema maður sé í allra fremstu röð.

„Þetta er drulluerfitt, ég fer ekki í felur með það og sérstaklega efnahagslega. Maður er ekki að fá neinar milljónir fyrir þetta. Maður er stundum að ströggla, en þetta er eitthvað sem maður þarf að komast í gegnum. Maður þarf að fá sér aukavinnu eða fara í skóla, því maður fær borgað fyrir að vera í skóla í Skandinavíu.

Andrea fagnar marki á HM.
Andrea fagnar marki á HM. Ljósmynd/Jon Forberg

Það er frekar lítið borgað í öllum liðum í Danmörku, en aðeins betur í Svíþjóð. Stundum eru stelpur bara að fá skó og lítið meira. Ef maður fær góðan samning stekkur maður á hann. Ég er að vinna með þessu núna og það er nóg að gera. Þetta er ekki alltaf dans á rósum en þetta er samt 100 prósent þess virði,“ útskýrði Fjölniskonan uppalda. Hún er hrifnari af lífinu í Danmörku en í Svíþjóð.

„Ég ætla að segja Danmörku. Það er rosalega gott að búa þar og umgjörðin í kringum handboltann og í öllum leikjum er frábær. Danmörk er staðurinn til að vera á akkúrat núna,“ sagði hún. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert