Senegal og Serbía kræktu í kvöld í tvö síðustu sætin í milliriðlum heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik og þá varð ljóst að Kínverjar verða á meðal mótherja Íslendinga í Forsetabikarnum í Frederikshavn.
Senegal sigraði Kína, 22:15, í úrslitaleik um þriðja sæti A-riðilsins í Gautaborg í Svíþjóð. Senegal lauk því keppni með þrjú stig og fer áfram með eitt stig í milliriðil eftir óvænt jafntefli við Króatíu.
Kína tapaði hins vegar öllum þremur leikjum sínum og verður í riðli með Íslandi, Grænlandi og Paragvæ í Forsetabikarnum.
Serbía vann Síle, 30:16, í úrslitaleik um þriðja sæti E-riðils í Herning í Danmörku. Serbar fengu tvö stig og Síle ekkert en serbneska liðið tekur engin stig með sér í milliriðilinn.
Síle fer í Forsetabikarinn og verður þar í riðli tvö með Íran, Kasakstan og Lýðveldinu Kongó. Ísland mun mæta einu af þessum fjórum liðum í lokaleik sínum um endanlegt sæti á HM.