Jóhanna Margrét Sigurðardóttir, 21 árs landsliðskona í handbolta, er mætt á sitt fyrsta stórmót í íþróttinni, en hún er hluti af íslenska hópnum sem er á heimsmeistaramótinu. Riðill Íslands hefur farið fram í Stafangri í Noregi undanfarna daga.
Jóhanna lék sinn níunda landsleik þegar Ísland mætti ólympíumeisturum Frakklands og hafa hlutirnir gengið hratt fyrir sig hjá Jóhönnu með landsliðinu.
„Maður stefndi alltaf á það að fara á stórmót og þegar maður fékk að vita að Ísland yrði á þessu móti þá lagði ég allt í sölurnar til að komast á mótið. Það er geggjað að vera komin hingað, sem er eitthvað sem maður er búin að dreyma um og stefna að lengi.
Það er geggjað að vera partur af þessu og vera partur af fyrsta stórmótinu í langan tíma. Við höldum þessari uppbyggingu áfram og ætlum að halda áfram að komast á þessi mót,“ sagði Jóhanna þegar hún ræddi við mbl.is á liðshóteli landsliðsins í Stafangri.
Íslenska liðið hefur verið í Noregi í um tvær vikur, en ferðalagið hófst á Posten Cup í Hamar og Lillehamer í undirbúningi fyrir HM.
„Þetta hefur verið mjög gaman, en á sama tíma krefjandi. Það er nóg um að vera, en samt ekki á sama tíma. Það hefur verið gaman að vera með stelpunum og vera í þessum félagsskap og þessari rútínu,“ sagði hún.
Jóhanna fékk ekki að spreyta sig gegn Slóveníu í fyrstu umferð, en lék síðustu mínúturnar gegn ólympíumeisturum Frakklands í annarri umferðinni.
„Það var mjög gaman og alveg ólýsanlegt að fá tækifærið. Það hefur alltaf verið markmiðið að spila á stórmóti og það er geggjað að það sé komið í höfn. Það var gæsahúð að standa og syngja þjóðsönginn,“ sagði Jóhanna.