Það var stórkostlegur árangur

Ágúst ræðir við liðsliðskonur árið 2015.
Ágúst ræðir við liðsliðskonur árið 2015. mbl.is/Haraldur Guðjónsson

Handknattleiksþjálfarinn reyndi Ágúst Jóhannsson er á sínu þriðja stórmóti með íslenska kvennalandsliðinu, en hann er aðstoðarþjálfari liðsins í dag. Ágúst var aðalþjálfari þegar íslenska liðið fór á sitt fyrsta heimsmeistaramót árið 2011 og annað Evrópumót ári síðar.

„Það er tvennt ólíkt og maður er í öðruvísi hlutverkum núna. Maður er mikið baksviðs að vinna með myndbönd, ná í þau og klippa.

Ágúst hefur verið lengi í þjálfun.
Ágúst hefur verið lengi í þjálfun. mbl.is/Óttar

Ég aðstoða Arnar og styð við bakið á honum. Hann er frábær þjálfari, með mikinn skilning á öllu og góður leiðtogi. Ég geri hvað ég get til að koma með eitthvað að borðinu. Ég hef feikilega gaman af þessu, að vinna með leikmönnum og Arnari,“ sagði Ágúst við mbl.is, en Eyjamaðurinn Arnar Pétursson er aðalþjálfari Íslands í dag.

Besta mót Íslands til þessa var HM í Brasilíu árið 2011, er liðið vann stórglæsilega sigra á Svartfjallalandi og Þýskalandi og sló rækilega í gegn. Þá var Ágúst einmitt á hliðarlínunni.

Ágúst ræðir við mbl.is.
Ágúst ræðir við mbl.is. Ljósmynd/Jon Forberg

„Það var stórkostlegur árangur. Við vorum með gríðarlega öflugt og reynslumikið lið á þeim tíma. Núna eru flestir yngri og þetta lið er á ótrúlega skemmtilegum og góðum aldri.

Það er gríðarleg orka í þessum hópi og svo erum við með leikmenn fyrir utan sem eru að glíma við meiðsli sem hefðu gert tilkall til að vera hérna líka. Þetta mót og framhaldið hjá þessu liði er mjög spennandi,“ sagði Ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert