Gærdagurinn var mjög erfiður

Berglind einbeitt í leiknum gegn Angóla.
Berglind einbeitt í leiknum gegn Angóla. Ljósmynd/Jon Forberg

„Það tók sinn tíma að ná þessu úr sér,“ sagði Berglind Þorsteinsdóttir, varnarsérfræðingur íslenska landsliðsins í handbolta, í samtali við mbl.is fyrir æfingu liðsins í Frederikshaven í Danmörku í dag.

Ísland missti af ferðalagi til Þrándheims og sæti í milliriðli í HM, þar sem liðið gerði 26:26-jafntefli gegn Angóla í leik sem varð að vinnast í D-riðli í Stafangri, og fór þess í stað til Frederikshaven í Danmörku í Forsetabikarinn, keppni um 25.-32. sæti.

„Við erum gíraðar í næsta verkefni. Auðvitað var mikill skellur að vera svona nálægt þessu en það er bara áfram gakk. Gærdagurinn var mjög erfiður og það var svolítið þungt yfir hópnum.

Berglind er komin í stórt hlutverk í landsliðinu.
Berglind er komin í stórt hlutverk í landsliðinu. Ljósmynd/Jon Forberg

Það voru allir svolítið þreyttir. Þá tókum við okkur smá frí, hættum að hugsa um handbolta, fórum út að borða og höfðum það notalegt. Við erum tilbúnar í dag,“ sagði Berglind.

Hún þarf yfirleitt tíma til að jafna sig eftir erfið töp, en er snögg að rífa sig upp aftur enda yfirleitt stutt á milli verkefna í handboltaheiminum.

„Ég get allavega ekki horft á leikinn strax. Ég þarf smá tíma til að jafna mig. Ég leyfi mér að vera svekkt sama dag og reyni svo að gíra mig upp daginn eftir. Svo er það næsta verkefni á fullri ferð,“ sagði Berglind.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert