Heimsmeistarar Noregs í handknattleik kvenna, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, lentu ekki í nokkrum vandræðum með Angóla þegar liðin áttust við í fyrstu umferð milliriðils 2 á HM 2023 í Þrándheimi í kvöld.
Lauk leiknum með 37:19-sigri Noregs eftir að staðan hafði verið 20:9 í hálfleik.
Markahæst í liði Noregs var Camilla Herrem með sjö mörk.
Fjórir leikmenn Angóla voru svo jafn markahæstir. Marilía Quizelete, Albertina Kassoma, Azenaide Carlos og Chelcia Gabriel skoruðu allar þrjú mörk.
Noregur er á toppi milliriðils 2 með 6 stig líkt og Frakkland í sætinu fyrir neðan.
Angóla er á botninum án stiga.
Þægilegt hjá Hollendingum
Holland mætti Brasilíu í milliriðli 4 og vann þægilegan sigur, 35:27.
Dione Housheer var markahæst í liði Hollands með sex mörk.
Markahæst í leiknum var hins vegar Kelly de Abreu Rosa með sjö mörk fyrir Brasilíu.
Þar með er Holland á toppi milliriðils 4 með 6 stig líkt og Spánn í öðru sæti.
Brasilía er í fjórða sæti með 2 stig.