Slóvenar og Tékkar byrjuðu á sigrum

Tamara Mavsar skoraði níu mörk fyrir Slóveníu.
Tamara Mavsar skoraði níu mörk fyrir Slóveníu. AFP/Beate Oma Dahle

Slóvenía og Tékkland unnu góða sigra þegar keppni  í milliriðlum HM 2023 í handknattleik kvenna hófst með tveimur leikjum í dag.

Í milliriðli 2 í Þrándheimi í Noregi mætti Slóvenía liði Suður-Kóreu, lenti í nokkrum vandræðum en vann að lokum fjögurra marka sigur, 31:27.

Tamara Mavsar var markahæst í liði Slóveníu með níu mörk en markahæst í leiknum var Ryu Eun-Hee, sem skoraði tólf mörk fyrir Suður-Kóreu.

Með sigrinum jafnaði Slóvenía topplið milliriðils 2, Noreg og Frakkland, að stigum. Öll eru þau nú með 4 stig en tvö síðarnefndu liðin eiga bæði leik til góða síðar í dag.

Suður-Kórea er án stiga á botni riðilsins.

Þægilegt hjá Tékkum

Í milliriðli 4 vann Tékkland þægilegan sigur á Úkraínu, 30:23, í Frederikshavn í Danmörku.

Markéta Jerábková var markahæst í leiknum með níu mörk fyrir Tékkland. Skammt undan var liðsfélagi hennar Veronika Malá með átta mörk.

Markahæst í liði Úkraínu var Tamara Smbatian með fimm mörk.

Tékkland er nú með fjögur stig líkt og Spánn og Argentína í milliriðli 4, sem eiga bæði leik til góða síðar í dag.

Úkraína er á botninum án stiga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert