Andrea Jacobsen, landsliðskona í handbolta, gerði nýjan samning við danska félagið Aalborg fyrir leiktíðina, en skömmu síðar var hún búin að skipta yfir til Silkeborg, sem var skref upp á við þar sem Aalborg leikur í 1. deild og Silkeborg í þeirri efstu.
„Ég skipti mjög skyndilega og hef fengið mun stærra hlutverk en ég bjóst við. Ég átti von á einhverjum örlitlum spiltíma, en ég er með risahlutverk og fullt af spiltíma. Ég gæti ekki verið ánægðri,“ sagði hún við mbl.is á liðshóteli landsliðsins í Stafangri í Noregi.
Elín Jóna Þorsteinsdóttir landsliðsmarkvörður skipti yfir til Aalborg fyrir leiktíðina og voru landsliðssamherjarnir spenntir að verða samherjar með félagsliði, en síðan var Andrea farin áður en Elín kom.
„Það var erfitt að segja henni það, en hún var að styðja mig í gegnum þetta allt saman og hún vildi ekki taka sitt lið eða sinn feril fram yfir mína drauma um að komast í efstu deild. Hún hvatti mig bara áfram í þessu,“ sagði Andrea.