Lið Angóla sem komst naumlega í milliriðil heimsmeistaramóts kvenna í handbolta með jafntefli gegn Íslandi sýndi styrk sinn þegar liðið sigraði Austurríki í Þrándheimi í dag, 30:25.
Úrslitin sýna svo ekki verður um villst að íslenska liðið hefði átt fullt erindi í milliriðilinn í Þrándheimi þar sem það hefði mætt Noregi, Austurríki og Suður-Kóreu.
Azenaide Carlos átti stórleik með Angóla í dag og skoraði níu mörk í leiknum en hjá Austurríki var Katarina Pandza atkvæðamest með átta mörk.
Angóla og Austurríki eru nú bæði með tvö stig eftir fjóra leiki en baráttan um efstu sæti riðilsins er á milli Noregs, Frakklands og Slóveníu og tvö þeirra munu komast í átta liða úrslit mótsins.
Þá vann Brasilía auðveldan sigur á nágrönnum sínum frá Argentínu, 33:19, í milliriðli fjögur í Frederikshavn í Danmörku.
Brasilía er með 4 stig eftir fjóra leiki og á þrátt fyrir sigurinn enga von um að komast í átta liða úrslitin. Holland, Spánn og Tékkland slást um sætin tvö þar.