Tékkar léku Spánverja grátt - auðvelt hjá Frökkum

Franska liðið fagnar eftir sigurinn á Suður-Kóreu í kvöld.
Franska liðið fagnar eftir sigurinn á Suður-Kóreu í kvöld. AFP/Beate Oma Dahle

Tékkar hleyptu heldur betur spennu í fjórða milliriðil heimsmeistaramóts kvenna í handknattleik í kvöld þegar þeir sigruðu Spánverja á sannfærandi hátt, 30:22, í Frederikshavn í Danmörku.

Tékkar eru þar með á toppi riðilsins, tímabundið alla vega, með 6 stig eins og Spánverjar og eru nú með þennan innbyrðis sigur gegn þeim. Hollendingar eru líka með 6 stig og mæta stigalausum Úkraínukonum í kvöld. Tékkar mæta Brasilíu í  sínum lokaleik á meðan Hollendingar og Spánverjar eigast við þannig að útlitið er bjart fyrir tékkneska liðið.

Marketa  Jerabkova skoraði 9 mörk fyrir Tékka, Charlotte Cholevová 8 og Veronika Malá 7 en Paulina Pérez var atkvæðamest Spánverja með 6 mörk.

Frakkar unnu Suður-Kóreu auðveldlega, 32:22, í milliriðli tvö í Þrándheimi. Frakkar eru með 8 stig, Noregur 6 og Slóvenía 4 en Noregur og Slóvenía mætast í kvöld. Frakkar og Norðmenn eiga síðan eftir að mætast í lokaumferðinni þannig að slagurinn um sætin tvö í átta liða úrslitunum er harður.

Orlane Kanor skoraði 7 mörk fyrir Frakka í kvöld en Boe-un Gim skoraði fimm mörk fyrir Suður-Kóreu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert