Ísland einum sigri frá úrslitaleik

Perla Ruth Albertsdóttir sækir að marki Paragvæ í dag.
Perla Ruth Albertsdóttir sækir að marki Paragvæ í dag. Ljósmynd/IHF

Íslenska kvennalandsliðið í handbolta vann sinn annan sigur í röð í riðli eitt í Forsetabikarnum á HM í Frederikshavn í Danmörku í dag er liðið lagði Paragvæ, 25:19.

Er íslenska liðið einum sigri frá úrslitaleik bikarsins og leik um 25. sæti mótsins. Næsti leikur er gegn Kína á mánudag og keppir Ísland um Forsetabikarinn með sigri í þeim leik.

Eftir jafnræði allra fyrstu mínúturnar var staðan 6:5 fyrir Íslandi eftir níu mínútna leik. Þá kom glæsilegur kafli hjá íslenska liðinu, því skömmu síðar var staðan orðin 10:5 og Paragvæ tók leikhlé.

Andrea Jacobsen í eldlínunni í dag.
Andrea Jacobsen í eldlínunni í dag. Ljósmynd/IHF

Ísland skoraði næstu tvö mörk eftir leikhléið, en Paragvæ svaraði með næstu tveimur og var staðan 12:7 þegar fimm mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Þá tók Arnar Pétursson leikhlé, enda Ísland ekki búið að skora í sjö mínútur.

Voru hálfleikstölur að lokum 13:9, þar sem íslenska liðið skoraði aðeins eitt mark síðustu tólf mínútur hálfleiksins.

Sem betur fer var Hafdís Renötudóttir í miklu stuði í markinu og varði 14 skot í hálfleiknum. Perla Ruth Albertsdóttir og Sandra Erlingsdóttir skoruðu þrjú mörk hvor.

Sunna Jónsdóttir og Thea Imani Sturludóttir standa vörn í dag.
Sunna Jónsdóttir og Thea Imani Sturludóttir standa vörn í dag. Ljósmynd/IHF

Perla skoraði tvö fyrstu mörk seinni hálfleiks og kom Íslandi í 15:9. Þá kom góður kafli hjá Paragvæ sem minnkaði muninn í 17:15, þegar seinni hálfleikur var hálfnaður.

Þá tók íslenska liðið við sér á ný og var fjögurra marka munur þegar rúmar tíu mínútur voru eftir, 19:15. Náði íslenska liðið góðri stjórn á leiknum eftir það, því Paragvæ var ekki líklegt til að jafna á lokakaflanum.

Perla Ruth Albertsdóttir átti stórleik fyrir Ísland og skoraði sjö mörk. Sandra Erlingsdóttir gerði fimm og Elísa Elíasdóttir þrjú. Hafdís Renötudóttir átti glæsilegan dag í markinu og varði 19 skot. 

Ísland 25:19 Paragvæ opna loka
60. mín. Fatima Acuna (Paragvæ) fékk 2 mínútur Biður Hafdísi afsökunar áður en hún fer af velli. Hafdís er í lagi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert