Svolítið skrítinn sigur

Thea, til hægri, stendur vörn í leiknum í dag.
Thea, til hægri, stendur vörn í leiknum í dag. Ljósmynd/IHF

„Þetta var svolítið skrítinn sigur,“ sagði skyttan Thea Imani Sturludóttir í samtali við mbl.is eftir 25:19-sigur Íslands á Paragvæ í öðrum leik liðanna í Forsetabikar heimsmeistaramótsins í handbolta í dag.

„Við erum ánægðar með að vinna en það var margt sem við hefðum getað gert miklu betur í þessum leik,“ sagði Thea og hélt áfram:

„Við stóðum oft langar varnir og hleyptum þeim svo í gegn þegar við vorum búnar að vera með þær lengi. Þetta var eitthvað stíft í dag.

Thea Imani Sturludóttir
Thea Imani Sturludóttir Ljósmynd/Jon Forberg

Þetta var spurning um okkur. Sem betur fer náðum við að halda þetta út. Við þurfum betri frammistöðu í þeim leikjum sem eftir eru,“ sagði Thea.

Ísland er ekki með mikla reynslu í að vera sigurstranglegra liðið, hvað þá á heimsmeistaramóti, og sú hlið er í þróun hjá liðinu.

„Við verðum að halda áfram að taka jákvæð skref. Þróa okkar leik og halda áfram. Það er gott fyrir okkur að fá æfingu í að vera í þessari stöðu,“ sagði Thea.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert