Vorum eitthvað daufar

Elísa verst ásamt Sunnu Jónsdóttur í leiknum í dag.
Elísa verst ásamt Sunnu Jónsdóttur í leiknum í dag. Ljósmynd/Jon Forberg

Eyjakonan Elísa Elíasdóttir í íslenska landsliðinu í handbolta var ánægð með að vinna 25:19-sigur á Paragvæ í öðrum leik liðsins í Forsetabikarnum á HM í Frederikshavn í Danmörku í dag. Hún var þó ekki sérstaklega ánægð með frammistöðu íslenska liðsins.

„Leikurinn var svolítið skrítinn. Það var gott hjá okkur að klára hann en það var eins og við værum ekki alveg 100 prósent.

Við vorum eitthvað daufar og það vantaði meiri kraft og vilja í okkur og geðveikina sem við erum búnar að vera með í undanförnum leikjum,“ sagði Elísa við mbl.is eftir leik.

Elísa skorar gegn Angóla í þriðja leik í riðlakeppninni.
Elísa skorar gegn Angóla í þriðja leik í riðlakeppninni. Ljósmynd/Jon Forberg

Ísland náði mest sjö marka forskoti í fyrri hálfleik og því eitthvað jákvætt sem hægt er að taka með í næstu verkefni.

„Við vorum að spila góða vörn, héldum þeim vel þar og náðum góðum hraðaupphlaupum. Við losuðum boltann vel, bjuggum til færi og nýttum þau vel,“ útskýrði hún.

Paragvæ fékk tækifæri til að minnka muninn í eitt mark í seinni hálfleik, en íslenska liðið sýndi styrk í að svara og vinna sex marka sigur.

„Ég var ekki mikið að spá í stöðunni. Ég var meira að einbeita mér að því að gera vel. Mér  fannst við samt vera með þær allan tímann,“ sagði Elísa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert