Angóla lauk keppni á heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik í Þrándheimi í Noregi í dag með öðrum sigri sínum í röð í milliriðli tvö þegar liðið lagði Suður-Kóreu, 33:31.
Angóla tryggði sér þar með fjórða sætið í riðlinum með fjögur stig og endar fyrir ofan bæði Austurríki og Suður-Kóreu eftir að hafa lagt bæði liðin að velli en angólska liðið komst naumlega í milliriðilinn með jafnteflinu gegn Íslandi á dögunum. Suður-Kórea fékk ekki stig og endar í neðsta sæti riðilsins.
Þar með endar Angóla í hópi sextán efstu liða á þessu heimsmeistaramóti.
Albertina Kassoma fór á kostum í liði Angóla og skoraði 11 mörk í 12 skotum.
Brasilía vann Tékkland, 30:27, í milliriðli fjögur en það dugar ekki brasilíska liðinu þó það endi riðilinn með 6 stig. Tékkland er líka með 6 stig en getur enn náð öðru sæti, ef Spánn tapar fyrir Hollandi í lokaleik riðilsins í kvöld.