Landsliðskonan Perla Ruth Albertsdóttir er ekki aðeins að glíma við verkefni innan vallar á sínu fyrsta stórmóti í handbolta, en hún hefur verið í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu.
Selfyssingurinn hefur aldrei verið eins lengi frá syni sínum Maroni Blæ, sem hún eignaðist með eiginmanni sínum Erni Þrastarsyni í maí árið 2021. Þeir feðgar heimsóttu Perlu til Stafangurs, þar sem riðlakeppnin fór fram.
„Þetta er lengsti tíminn. Ég hafði mest verið í fimm daga frá honum þangað til núna. Þetta hefur verið mikil áskorun, en það var virkilega gott að fá þá í heimsókn í riðlakeppninni.
Við skruppum saman í boltaland á milli leikja og það var mjög kærkominn tími,“ sagði Perla er hún ræddi við mbl.is í Frederikshavn í Danmörku, þar sem riðill Íslands í forsetabikarnum fer fram.