Sandra Erlingsdóttir, lykilmaður í íslenska landsliðinu í handbolta, upplifði blendnar tilfinningar eftir 37:14-sigurinn á Grænlandi í fyrsta leik liðsins í Forsetabikarnum á HM í Frederikshavn í Danmörku.
Hún var að sjálfsögðu sátt við stóran sigur, en að sama skapi eilítið svekkt með að Ísland væri ekki að spila í milliriðli, eftir að hafa sýnt yfirburði í fyrsta leik í Forsetabikarnum.
„Það var auðvitað frábært að vinna leik, fyrsta leikinn á stórmóti. Það stráði samt smá salti í sárið að sjá hvað við áttum skilið að vera í milliriðli. Maður er alltaf að sjá meira og meira hvað við hefðum getað verið í milliriðli.
Við vorum með yfirburði í gær, en þetta er verkefnið sem við erum komnar í núna og við skiluðum af okkur frábæru dagsverki á móti Grænlandi og núna verðum við að halda áfram,“ sagði Sandra við mbl.is fyrir æfingu liðsins.
„Við skipulögðum okkur vel fyrir leikinn og strax frá fyrstu mínútu tókum við yfir leikinn. Svo var gaman að sjá hvað allir fengu mínútur og fengu góða reynslu,“ bætti hún við.
Leikmenn Íslands eru einróma um að nú sé markmiðið að vinna Forsetabikarinn og enda í 25. sæti heimsmeistaramótsins.
„Ef við segjumst eiga heima í milliriðlinum verðum við að sýna það hérna líka og vinna þennan bikar,“ sagði Eyjakonan.