Gestgjafarnir unnu riðlana – Paragvæ lagði Grænland

Stuðningsmenn Danmerkur fagna í kvöld.
Stuðningsmenn Danmerkur fagna í kvöld. AFP/Claus Fisker

Svíþjóð og Danmörk unnu milliriðla sína með góðum sigrum í uppgjörum tveggja efstu liða milliriðla 1 og 3 á HM 2023 í handknattleik kvenna í kvöld.

Gestgjöfum Svíþjóðar nægði jafntefli gegn Svartfjallalandi í milliriðli 1 en gerðu þeir gott betur og unnu örugglega, 32:25, í Gautaborg.

Bæði lið höfðu þegar tryggt sér sæti í átta liða úrslitum fyrir leikinn.

Nathalie Hagman og Jamina Roberts voru markahæstar í liði Svíþjóðar með sex mörk hvor. Jenny Carlson bætti við fimm mörkum.

Jelena Despotovic skoraði sex mörk fyrir Svartfjallaland og Durdina Malovic fimm.

Danir fóru upp fyrir Þjóðverja

Danmörk þurfti á sigri að halda gegn Þýskalandi til þess að vinna milliriðil 3 og gerði einmitt það, en leiknum lauk með 30:28-sigri gestgjafa Dana í Herning.

Bæði lið höfðu þegar tryggt sér sæti í átta liða úrslitum fyrir leikinn.

Emma Friis var markahæst hjá Danmörku með sjö mörk og Anne Mette Hansen bætti við sex. Kristina Jörgensen skoraði þá fimm mörk.

Markahæst í liði Þýskalands var Emily Bölk með fimm mörk.

Kærkominn sigur Paragvæ

Paragvæ vann sinn fyrsta sigur á mótinu með því að leggja Grænland að velli, 21:19, í riðli 1 í Forsetabikarnum, riðli Íslands.

Þar með er ljóst að Paragvæ leikur við Kasakstan um 29. sætið á mótinu og Grænland leikur um 31. sætið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert