„Þetta er búið að vera flott,“ sagði markvörðurinn Elín Jóna Þorsteinsdóttir við mbl.is um sitt fyrsta stórmót í handbolta, en hún hefur verið í stóru hlutverki í liði Íslands á HM.
Mótið hjá Íslandi byrjaði í Stafangri í Noregi, áður en liðið hélt til Frederikshavn í Danmörku í Forsetabikarinn. Var Ísland einu marki frá því að komast í milliriðla.
„Þetta hefur verið svolítið sveiflukennt, þar sem við komumst ekki áfram í milliriðilinn en þess fyrir utan hefur þetta verið rosalega gaman að vera með stelpunum, þótt þetta sé orðið svolítið langt núna,“ sagði hún.
Elín viðurkennir að það hafi tekið sinn tíma að jafna sig á áfallinu við að rétt missa af sæti í milliriðli, en nú ætlar íslenska liðið sér sigur í Forsetabikarnum. Til þess að það geti orðið að veruleika þarf íslenska liðið fyrst að vinna það kínverska í dag.
„Það tók smá tíma að jafna sig, en við viljum klára þetta með bikar. Það er ótrúlega spennandi tilhugsun. Ég hef einu sinni spilað á móti Kína áður og það gekk rosalega vel. Það er svolítið langt síðan samt.
Þetta er skemmtilegt lið sem spilar öðruvísi handbolta, rétt eins og Paragvæ spilar öðruvísi en maður er vanur. Það er alltaf gaman að spila á móti svona liðum,“ sagði Elín.