Senegal hafði betur gegn Kamerún, 22:20, þegar liðin áttust við í milliriðli 1 á HM 2023 í handknattleik kvenna í Gautaborg í dag. Á sama tíma vann Japan sterkan 22:20-sigur á Serbíu í milliriðli 3.
Í leik Senegals og Kamerúns var síðarnefnda liðið með undirtökin í fyrri hálfleik og leiddi með fimm mörkum, 12:7, í hálfleik.
Í síðari hálfleik snerist taflið við svo um munaði þar sem Kamerún gat vart skorað mark lengst af á meðan Senegal lék á als oddi og náði forystunni.
Leikmenn Senegals bættu bara í og náðu til að mynda þriggja marka forystu, 19:16, þegar skammt var eftir.
Kamerún gafst hins vegar ekki upp og minnkaði muninn niður í eitt mark, 21:20, í blálokin en niðurstaðan að lokum tveggja marka sigur Senegals.
Soukeina Sagna var markahæst í liði Senegals með sex mörk. Dienaba Sy og Aminata Cissokho bættu við fimm mörkum hvor.
Senegal lýkur keppni á HM í fimmta sæti milliriðils 1 með 3 stig á meðan Kamerún lýkur keppni sæti neðar án stiga.
Laeticia Ateba Engadi og Paola Ebanga Baboga voru markahæstar hjá Kamerún með fimm mörk hvor.
Í leik Japans og Serbíu, sem fram fór í Herning í Danmörku, byrjuðu Japanir af feikna krafti og komust í 6:1 snemma leiks. Serbar náðu þá áttum og jöfnuðu metin í 6:6.
Japan var einu marki yfir, 9:8, í hálfleik.
Í síðari hálfleik var Japan áfram við stjórn og kom sér í álitlega stöðu þegar um átta mínútur voru eftir.
Þá var staðan orðin 20:16. Serbía klóraði aðeins í bakkann en Japan vann að lokum tveggja marka sigur.
Markahæst hjá Japan var Kaho Nakayama með sex mörk.
Aleksandra Vukajlovic skoraði einnig sex mörk fyrir Serbíu.
Japan fór með sigrinum upp í þriðja sæti milliriðils 3 þar sem liðið er með 4 stig eftir að hafa einnig unnið gestgjafa Danmerkur óvænt fyrir helgi.
Kemur í ljós á eftir í hvaða sæti Japanir hafna í en Serbía lýkur leik á HM í sjötta og neðsta sæti riðilsins.
Í riðli 2 í Forsetabikarnum mættust þá Kasakstan og Íran þar sem Kasakar höfðu betur, 33:29.
Kasakstan leikur við Paragvæ eða Grænland um 29. sætið á HM og Íran leikur svo um 31. sætið við annað hvort framangreindra liða.