Svartfjallaland áfram eftir sigur Ungverja – Rúmenía vann

Katrin Klujber fór illa með Króata í kvöld.
Katrin Klujber fór illa með Króata í kvöld. AFP/Adam Ihse

Ungverjaland sá til þess að Svartfjallaland fer í átta liða úrslit HM 2023 í handknattleik kvenna með því að hafa betur gegn Króatíu, 23:22, í milliriðli 1 eftir magnaða endurkomu í Gautaborg í kvöld.

Króatar voru með undirtökin stærstan hluta leiksins og náðu nokkrum sinnum sex marka forystu í síðari hálfleik.

Ungverjar voru hins vegar aldrei á því að gefast upp, minnkuðu muninn niður í eitt mark, 22:21, í fyrsta sinn í síðari hálfleiknum og jöfnuðu svo metin í 22:22.

Ungverjaland gerði sér svo lítið fyrir og skoraði einu sinni til viðbótar í blálokin og tryggði sér ævintýralegan sigur.

Katrin Klujber átti stórleik fyrir Ungverjaland og skoraði níu mörk.

Dejana Milosavljevic var markahæst hjá Króatíu með átta mörk.

Með sigrinum fór Ungverjaland upp í þriðja sæti riðilsins, þar sem liðið er með sex stig líkt og Svartfjallaland í öðru sæti.

Svartfellingar unnu innbyrðis viðureign sína við Ungverjaland og er því komið áfram í átta liða úrslit, sama hvernig leikur liðsins gegn gestgjöfum Svíþjóðar fer í kvöld.

Með sigri gegn Svíþjóð vinnur Svartfjallaland milliriðil 1.

Buceschi skoraði ellefu mörk

Rúmenía lagði þá Pólland að velli, 27:26, í milliriðli 3 og tryggði sér þannig þriðja sætið í riðlinum. Þýskaland og Danmörk voru bæði þegar búin að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum og mætast í úrslitaleik um efsta sætið í kvöld.

Eliza-Iulia Buceschi fór á kostum í liði Rúmeníu og skoraði 11 mörk.

Magda Balsam fór fyrir Póllandi og skoraði átta mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert